Lýsing
Ölfusá Svæði II og I – Laxveiði
Ölfusá er vatnsmesta á landsins en hún verður til þegar Sogið hefur runnið í Hvítá skammt austan við Ingólfsfjall. Ölfusá er um 25 km löng og hefur vatnið að mestu leiti þann lit er einkennir Hvítá og önnur jökulvötn þó, munar mikið um tært lindarvatni úr Soginu, en þess gætir meðfram vestari og nyrðri bakka árinnar alveg að bæjarmörkum Selfossbæjar. Við ármótin rennur áin lygn og breið á grynningum, fyrst til suðurs en beygir síðan til vesturs við suðaustur horn Ingólfsfjalls. Móts við Laugardæli þrengist áin og skammt ofan við Ölfusárbrú rennur megnið af henni í djúpri gjá í miklum straumköstum undir brúna og mætir þar þverhníptu bergi neðan við Selfosskirkju, þar beygir síðan áin fyrst í norður og síðan aftur í vestur. Norðan við Selfoss bæina hefur áin breytt úr sér aftur og verður lygnari. Hér rennur áin meðfram vestur kanti hins mikla Þjórsárhrauns í vesturátt og til sjávar skammt austan Eyrarbakka. Skömmu áður en áin rennur í sjó fram breikkar hún mikið og myndast þar all mikið lón. Óseyrartangi lokar þessu lón vestan megin en ósinn sjálfur er frekar mjór og afmarkast af Óseyratanga í vestri og Óseyrarnesi í austri. Meðalrennsli Ölfusár við Selfoss er 373 m3 / sek.
Veiðar í Ölfusá á svæðum Stangaveiðifélags Selfoss fara fram fyrir land tveggja jarða Fossnes og Hellis. Fyrir neðan brú er Fossnes og þar veiða menn á veiðistað sem heitir Víkin. þarna hagar þannig til að staðið er á klapparsyllu, nokkurskonar einstigi og þar sem sylla þessi endar er hefur verið komið fyrir steyptum palli með veglegu járnhandriði. Á árum áður var ekki veitt af þessari syllu. Heldur stóðu menn þá upp við læk nokkurn sem rann út í ánna miðja vegu milli brúarinnar og núverandi veiðistaðar. Einnig veiddu menn niður með bakkanum að klettinum og þá tók laxinn oft alveg upp við bergið og sökum þess þótti á þeim tíma óráð að standa á syllunni. Nú til dags er mest staðið á pallinum og í lítilli vík neðan hans. Hér er veitt við heldur óhefðbundnar aðstæður í miklum straumþunga. Veiðiaðferðin ber þess líka merki og hér er mest veitt á það sem kallað er „aðferðin“ en aðferðin felst í því eins og flestir veiðimenn vita að blýsakka er sett á sérstakan taum en beitan, maðkur eða túpa er á öðrum taum og er sá, gjarnan hafður aðeins lengri.
Ofan brúar erum við í landi Hellis og þar eru nokkrir veiðistaðir og sá sem mest er stundaður er kallaður Miðsvæði. Miðsvæðið er alllangur veiðistaður. Efst er talsvert stór breiða þar sem ekki er mjög straumþungt og er þar kjörin staður til fluguveiði, en neðst á svæðinu rennur áin í meiri þrengingu og steypist þar ofan í gjá þá er áður var minnst á. Þar er orðið býsna straumþungt og mikill ferð á færinu. Neðan við Miðsvæðið eru tveir veiðistaðir, Adamsvík og Klettsvík. Adamsvíkin hefur ekki mikið verið veidd nú síðari ár en þar koma þó a nokkrir laxar á hverju sumri. Klettsvík er fengsæll staður þar sem fjöldi laxa er bókaður ár hvert. Klettsvíkin er mjög lítill veiðistaður og er veitt í straumléttri vík mjög nærri landi. Laxinn gengur þarna með bakkanum en rétt utar veltur áin fram með miklum boðaföllum á stórgrýttum botni. Þarna eru oft háð tvísýn barátta því laxinn á það til að taka roku út í strauminn fyrir utan og þá er stundum tekist harkalega á. Ofan við miðsvæðið er veiðistaður sem kallast Hrefnutangi minna stundaður nú en áður fyrr. Þar fyrir ofan er staður sem ber það óyndislega nafn „gömlu ruslahaugarnir“ hann dregur nafn sitt af því að þar á bakkanum voru fyrir margt löngu öskuhaugar Selfyssinga. Þetta er skemmtilegur og fallegur staður beint móts við efri Laugardælaeyju, þar hentar líka ágætlega til fluguveiða. Ofan við þennan stað er síðan nokkrir veiðistaðir sem heita allir einu nafni Efst svæðið. Þar eru menn staddir gegnt Laugardælum og þar er Ölfusá hvað þrengst og er þar gamall ferjustaður. sumstaðar á Efsta svæðinu leggst stundum fiskur á áliðnu sumri og þar veiðast ár hvert þó nokkrir laxar. Um Ölfusá gengur mikill fjöldi laxa á leið sinni á sína heima á. Stór hluti gengur í Sogið og eins er Hvítár stofninn stór en til hans teljast allir þeir fiskar sem eiga sín heimkynni í þeim fjölmörg þverám sem í Hvítá renna. Þeir laxar sem veiðast í Ölfusá innan bæjarmarka Selfoss eru að langmestu eða öllu leiti göngufiskur enda er aðal veiðitímabilið frekar stutt, eða frá því í endaðan júní og fram í byrjun ágúst. Gegnum árin hafa verið stundaðar mjög miklar netaveiðar í Ölfusá en þær eru nú að stórum hluta aflagðar sem betur fer þó að blikur séu nú á loft hvað það mál varðar. Netaveiði í Ölfusá stendur stangaveiði á vatnasvæði Hvítár – Ölfusár fyrir þrifum og er að okkar áliti úrelt nýtingarform á þessari auðlind. Við teljum að best væri að leggja þær alveg af og huga frekar að fiskirækt á vatnasvæðinu og efla það sem stangveiðisvæði, öllum til hagsbóta enda marg sannað að stangaveiddur lax er margfalt verðmætari heldur en fiskur sem veiddur er í net.
Staðsetning: Við Selfoss.
Veiðisvæði: Svæði I víkin, Svæði II miðsvæði, Svæði III efsta svæði (frísvæði)
Stangafjöldi: 3
Tímabil: 21/06 – 21/09
Leyfilegt agn: Fluga, maðkur og spónn
Góðar flugur: Snælda, Frances, Grýla
Veiðihús: Veiðihús fylgir svæðinu og stendur það fyrir innann bílaplanið við Víkina En þar er að finna WC, heitt vatn, ísskáp ofl. Veiðimönnum ber að þrífa húsið vandlega fyrir brottför og fjarlægja allt rusl.
Reglur: Stangarfjöldi samtals 6. Þrjár stangir á Svæði I og þrjár stangir á Svæði II, Þrjár stangir eru leyfðar á hverju svæði og eru þær seldar saman eða sitt í hvoru lagi. Veiðimenn á Svæði I og Svæði II skipta um veiðisvæði í hádegishlé, þannig að þeir sem eru fyrripart á Svæði I fara seinnipart á Svæði II, og öfugt.
Daglegur veiðitími er frá kl. 7.00 til 13.00 og 16.00 til 22.00 en eftir 20.ágúst frá kl. 7.00 til 13.00 og 15.00 til 21.00.
Veiðimenn í Ölfusá skipta alltaf um veiðisvæði í hádegishléi. þannig að þeir sem eru fyrripart á Svæði I fara seinnipart á Svæði II, og öfugt.
Veiðikort: Er í veiðihúsinu.
Veiðibók: Liggur frammi í veiðihúsi, mikilvægt að skrá allan afla.
Veiðileyfi: Félagar í SVFS fá úthlutað, eftir það eru öll laus leyfi seld á leyfi.is
Umsjónarmaður / veiðivörður: Viktor Óskarsson 8972651