Um félagið
    Stangaveiðifélag Selfoss var stofnað á Selfossi árið 1946. Fyrsti formaður félagsins var Sigurður Ingi Sigurðsson og með honum í stjórn þeir Lúðvíg Guðnason og Benedikt Franklínsson.

    Tilgangurinn með stofnun félagsins var sá að gera tilboð í veiðiréttinn í Ölfusá fyrst fyrir landi Hellis og síðan Fossness, en báðar þessar jarðir urðu síðar hluti af Selfosshrepp. Í fyrstu skrám félagsins má sjá skráða tæplega 20 félagsmenn. Á þessum árum er mikið um sjóbirting í ánni og silungsveiðar meira stundaðar en veiðar á laxi þó það hafi síðar snúist við og veiðimennskan i Ölfusá snúist nú aðallega um laxveiðar.

    Félögum fór ört fjölgandi er árin liðu og þörfin fyrir fleiri og fjölbreyttari veiðisvæði jókst. Félagið hefur í áranna rás verið með á sínum snærum ýmis svæði en í dag bjóðum við upp á leifi í Ölfusá, Sogi fyrir landi Alviðru, Hlíðarvatni í Selvogi og í Volanum sem er okkar nýjast svæði. Volinn kemur úr Hvítá við Brúnastaði í Hraungerðishrepp gegnum áveituskurð Flóárveitunnar, rennur um lágsveitirnar í Flóanum til sjávar í Baugstaðaós skammt austan Stokkseyrar. Fjöldi félagsmanna í Stangaveiðifélagi Selfoss er í dag um 160 og er félagið opið öllum sem búsettir eru í Sveitarfélaginu Árborg og hafa náð 14 ára aldri.